Við leitum enn á ný til safnaðarins,  með stuðning upp á  2.100 kr.    Þessar greiðslur í heimabanka eru valfrjálsar með öllu.

Nú söfnum við fyrir lagfæringum eða jafnvel nýju safnaðarheimili, en um þessar mundir er verið að meta bestu leiðir eftir að víðtækt tjón af völdum veggjatítla kom í ljós. Síðast var safnað fyrir lagfæringum á kirkjunni og kirkjutröppum Síðustu daga var reistur vinnupallar til að koma fyrir leka frá suðurglugga í kirkjuturninum, en vatn hefur lekið alveg niður á selerni kirkjunnar. Tröppurnar verða teknar í gegn síðar í sumar.

Fríkirkjan í Hafnarfirði  nýtur þeirrar sérstöðu að vera alfarið í eigu safnaðarins.  Við stjórnum okkur sjálf, án íhlutunar stjórnvalda eða annara kirkjudeilda.  Safnaðarstarfið er farsælt og margir leita til kirkjunnar í gleði og sorg eins og þar stendur.  Sóknargjöld  sem innheimt eru með tekjuskatti hvers og eins eru helsti tekjustofn Fríkirkjunnar og duga rétt svo í það að halda úti starfinu með tvo presta í fullu starfi, tónlistarstjóra, í barnastarf o.s.frv. Fríkirkjan býr ekki við það að samningur séu um beinar launagreiðlur til presta og Fríkirkjan á ekki rétt á að sækja til jöfnunarsjóðs kirkna þó svo að hluti sóknargjalda renni þangað.  Við stöndum sjálf straum af öllum kostnaði.

Grunnur sóknargjalda hefur lítið hækkað undanfarin ár og alls ekki fylgt verðlagi. Ef ekki væri fyrir árlega fjölgun í Fríkirkjunni og almennan velvilja, væri fjárhagsstaðan mjög erfið.

Við í  Fríkirkjunni myndum söfnuðinn, veljum að tilheyra honum af fúsum og frjálsum vilja.   Þess vegna er gríðarmikilvægt að finna þennan velvilja  þegar safna þarf fyrir verkefnum sem bíða okkar.