Gifting

Hjónavígsluskilyrði

Áður en hjónavígsla fer fram þarf að kanna hvort nokkuð standi í vegi fyrir hjúskap og fylla út hjá presti eða sýslumanni Könnunarvottorð. Ef bæði hjónaefnin eiga lögheimili á Íslandi sér prestur um þessa könnun og þarf þá aðeins að sækja vottorð á Þjóðskrá um núverandi hjúskaparstöðu og koma með þessa pappíra til prests. Í hjúskaparlögum nr.31/1993 segir: Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra skulu þó ávallt annast könnun á hjónavígsluskilyrðum ef annað hjónaefna eða bæði eiga ekki lögheimili hér á landi.

Umgjörð hjónavígsluathafnar getur verið með margvíslegum hætti. Flestir þekkja hin hefðbundnu kirkjubrúðkaup þar sem mikið er haft við. En hjónavígsluathafnir í kirkjunni eru líka margar með afar látlausum hætti og oft aðeins brúðhjón og þeirra svaramenn til staðar. Þessari umgjörð ráða brúðhjón að sjálfsögðu sjálf.

Prestarnir eru til viðtals um undirbúning giftingar í viðtalstímum og skrá óskir um tímasetningar. Sumarið hefur á síðustu árum verið vinsælasti giftingartíminn og er þá gift flesta laugardaga. Ef fólk horfir til sumarsins er því nauðsynlegt að panta tíma með góðum fyrirvara.

Einfaldasta formið er þegar brúðhjón ganga saman til kirkju. Stundum er þessi athöfn án tónlistar en oftar kjósa brúðhjónin að organisti leiki brúðarmars.

 

Algengasta fyrirkomulag vígslunnar

Það form, sem er algengast í dag er þegar brúðgumi og svaramaður hans mæta tímanlega til kirkju og sitja hægra megin, þegar horft er inn eftir kirkjunni. Þeir rísa úr sætum og taka þannig á móti gestum.

 

Brúður gengur inn kirkjugólf til vinstri handar svaramanni sínum og sitja þau vinstra megin í kór kirkjunnar, gegnt brúðguma og svaramanni hans. Hjónaefnin sitja í sætum nær söfnuði.

Eftir brúðarmarsinn er leikinn eða sunginn sálmur til helgunar brúðhjónum og þeirra athöfn. Þá flytur prestur ávarp til brúðhjóna.

Þá er aftur flutt tónlist eftir óskum brúðhjóna, sem þau velja í samráði við organista og prest.

Brúðhjón sameinast fyrir altari þar sem prestur flytur ávarp til þeirra og les úr ritningunni um hjónabandið og sambúð læriveinanna. Þar á eftir fylgir hjónavígslan sjálf með spurningum til brúðhjóna það er vígsluheiti. Þá er handsal sáttmálans, yfirlýsing, bæn og blessun. Séu hringar settir upp í athöfninni eru þeir settir upp fyrir handsal.

Brúðhjón krjúpa undir bæninni. Þá rísa brúðhjón upp og óska hvort öðru til hamingju með kossi og ganga síðan til sæta. Brúðurin í sama sæti og áður og brúðgumi við hlið hennar. Svaramenn sitja nú gegnt brúðhjónum.

Eftir vígsluna er flutt tónlist og síðan ganga brúðhjón úr kirkju og er brúður brúðguma til hægri handar.

Hjónavígsla getur einnig farið fram í almennri messu safnaðarins. Tónlist, sem er valin til flutnings í athöfninni þarf að hæfa tilefninu og helgidóminum.

Engin hrísgrjón á kirkjulóð

Mikill sóðaskapur fylgir því að ausa hrísgrjónum yfir brúðhjón og er þeim sjálfum yfirleitt til mikils ama. Starfsfólk Fríkirkjunnar fer þess á leit að hrísgrjónum sé ekki sturtað yfir kirkjulóðina enda mikil vinna að þrífa slíkt upp.

 

Söngur við giftingar

Sálmar úr sálmabók nr. 262, 263 og 264.

Þá má benda á fallega texta við þessi fallegu lög, Love me tender og Amazing Grace.

 

Brúðarljóð (Love Me Tender)

Blessa Drottinn blessa þú

brúðhjónin í dag,

efl þú þeirra ást og trú

og allan þeirra hag

sönnum kærleik, sannri trú

sé þeirra hjónaást,

svo ævi þeirra öll sé byggð

á elsku´ er hvergi brást.

Hvar sem þeirra liggur leið

lífs um ævistig,

verði þeirra gata greið

og gleðin minni´ á þig.

Helga þeirra börn og bú

og blessa þeirra hag,

já blessa Drottinn, blessa þú

brúðhjónin í dag.

Sr. Sigurður H. Guðmundsson

Á brúðkaupsdegi (Amazing Grace)

Á brúðkaupsdegi bið ég þess

að blessist allt á jörð.

Hjá þeim er vinna heilög heit

að helgri sáttargjörð.

Ég bið að drottin blessi þau
er bundu sáttargjörð.
Og verði þeirra styrka stoð
og standi um þau vörð.