Hvers vegna að skrá sig?

Það er talsvert hagsmunaatriði fyrir Fríkirkjuna að þeir sem njóta þjónustu presta hennar eða safnaðarstarfsins á annan hátt séu skráðir í söfnuðinn sem fær þá safnaðargjöldin til sín. 

Hér eru nokkrar algengar spurningar sem okkur berast reglulega og svör okkar við þeim: 

Hvers vegna að skrá sig í Fríkirkjuna?

Ef fólk nýtur þjónustu presta Fríkirkjunnar í Hafnarfirði, s.s. við skírn, fermingu, brúðkaup eða jarðarför, er í raun eðlilegt að það sé skráð í þann söfnuð.

Hvers vegna?

Vegna þess að rekstur okkar og tekjur byggja fyrst og fremst á þeim sem eru skráðir í söfnuðinn. 

Hverju breytir skráningin fyrir rekstur safnaðarins?

Söfnuðurinn er sjálfstætt félag sem stendur straum af rekstri sínum, þar með talinn launakostnaður presta og annarra starfsmanna sem eru auðvitað stærstu útgjaldaliðirnir. Við státum af öflugu starfi og erum einnig með tvö stór og gömul hús sem þarf að viðhalda, kirkjuna og safnaðarheimilið. Tekjur safnaðarins fara langmest eftir því hversu margir eru skráðir í hann. 

Hvaða tekjur hafið þið?

Ríkið skilar söfnuðinum safnaðargjaldi fyrir hvern og einn, 16 ára og eldri, sem skráðir eru – það eru föstu tekjurnar okkar og langstærsti tekjuliðurinn. Til dæmis má nefna að söfnuðir þjóðkirkjunnar fá sömu tekjur fyrir hvern og einn, s.k. sóknargjald, en að auki greiðslur í jöfnunarsjóð sem við höfum ekki aðgang að og ríkið greiðir laun presta þeirra – en ekki okkar. 

Þannig að ef ég nýt þjónustu presta Fríkirkjunnar en er skráð/-ur í annan söfnuð fara gjöldin mín þangað en ekki til Fríkirkjunnar?

Já. 

Hverjir eru prestarnir ykkar?

Sr. Einar Eyjólfsson frá 1984 og sr. Sigríður Kristín Helgadóttir frá 2000. 

Er einhver munur á lögmæti gjörninga presta fríkirkju og presta þjóðkirkju?

Nei. Fríkirkjuprestar eru vígðir af biskupi Íslands og það sem þeir gera er jafngilt og þjóðkirkjuprestar hefðu gert það; skírnir, fermingar, giftingar og jarðarfarir.

Er einhver munur á trúnni hjá Fríkirkjunni í Hafnarfirði og Þjóðkirkjunni?

Nei. Í trúarlegum efnum er enginn munur en ætli við eigum ekki einna helst samleið með frjálslyndari söfnuðum og prestum Þjóðkirkjunnar. 

Af hverju eruð þið þá með fríkirkju?

Vegna þess að við viljum vera sjálfstæð og óháð í okkar störfum og höfum unnið þannig í 100 ár með það að leiðarljósi að starfrækja gott og uppbyggilegt starf án utanaðkomandi afskipta, byggt á kristilegum gildum, frelsi og umburðarlyndi. Við höldum þó í ýmsar hefðir og hátíðleika eftir tilefnum og ástæðum.

Er mikið mál að skrá sig í söfnuðinn?

Nei, það er lítið mál. Bara fylla út eyðublað hjá okkur í safnaðarheimilinu (opið frá 10-16) eða á vefnum hjá Þjóðskrá

Athugið að ef forráðamenn eru tveir þurfa báðir að undirrita fyrir hvert barn og börn eldri en 12 ára þurfa auk þess að undirrita skráninguna sjálf. Fyrir 16 ára og eldri gildir skráning hvers fyrir sig og þarf hver og einn sjálfur að undirrita sína skráningu. 

Nánari upplýsingar veitir formaður safnaðarstjórnar, Einar Sveinbjörnsson í síma 857 1799. Einnig veita prestarnir fúslega alla nauðsynlega þjónustu og upplýsingar vegna skráningarinnar.

Tilkynningum má skila á skrifstofur safnaðarins að Linnetsstíg 6 í Hafnarfirði. Eyðublöðin má einnig senda útfyllt sem símbréf (515 5310) til Þjóðskrár eða í pósti,merkt: Þjóðskrá, Borgartúni 21, 105 Reykjavík. 

_______________________________________

Nánari upplýsingar

Í tölum frá Hagstofunni sem birtar voru í ársbyrjun 2011 voru yfir 6.000 manns í Fríkirkjusöfnuðinum í Hafnarfirði, þar af eru um 5.600 búsettir hér á landi. Árið 2006 voru 4.757 manns skráðir í Fríkirkjusöfnuðinn í Hafnarfirði.  Af því má sjá að veruleg fjölgun hefur orðið hjá Fríkirkjunni í Hafnarfirði en 1. desember 2005 voru 4.566 manns í söfnuðinum, 1.desember 2004 voru 4.365 manns í söfnuðinum, 1.des. 2003 4.127 manns og 1. des. 2002 3.922 manns í söfnuðinum.   

Þess skal einnig getið sbr. fréttatilkynningu Hagstofunnar  að „samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987 skilar ríkissjóður ákveðnum hluta tekjuskatts til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskólasjóðs. Þessi fjárhæð nefnist sóknargjald og er það ákvarðað sem tiltekin upphæð ár hvert fyrir hvern mann, sem er orðinn 16 ára 31. desember árið áður en gjaldár hefst. Þegar gjaldinu er ráðstafað til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga er miðað við lögheimili og skráningu fólks í trúfélög 1. desember árið áður en gjaldár hefst. Gjaldið er greitt til safnaðar þeirra sem eru skráðir í þjóðkirkjuna, til skráðs trúfélags einstaklinga sem eru ekki í þjóðkirkjunni og til Háskóla Íslands vegna einstaklinga sem standa utan trúfélaga eða eru í trúfélagi sem ekki hefur hlotið skráningu.“

Af þessari ástæðu er rétt að benda á að fjölmargir nýta sér þjónustu presta Fríkirkjunnar í Hafnarfirði en eru þó ekki skráðir í söfnuðinn. Sérstök ástæða er því til að vekja athygli þeirra sem áhuga hafa á að ganga til liðs við Fríkirkjuna í Hafnarfirði að hafa samband við prestana eða formann safnaðarstjórnar, Jóhann Guðna Reynisson, en hann er til viðtals í safnaðarheimili Fríkirkjunnar að Linnetsstíg 6 og í síma 565 3430 alla virka daga eftir hádegi. Þau veita fúslega alla nauðsynlega þjónustu og upplýsingar vegna skráningarinnar.

Skráning í söfnuðinn fer þannig fram að innganga í Fríkirkjusöfnuðinn í Hafnarfirði er skráð á tiltekin eyðublöð og skilað inn á Þjóðskrá. Eyðublöð má nálgast á skrifstofu safnaðarins að Linnetsstíg 6 en einnig er hægt að nálgast þau með því að velja „Skráningareyðublöð“ hér neðst á síðunni.  Þeim má skila inn á þjóðskrá eða á skrifstofu safnaðarins í umslagi merktu „Til presta“.