Sagan

8_m157      Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði var stofnaður 20. apríl, 1913 en formlegur afmælisdagur er jafnan miðaður við sumardaginn fyrsta, sama upp á hvaða mánaðardag hann ber. Það er vegna þess að þann dag árið 1913, sem þá bar upp á 24. apríl, var fyrsta guðsþjónustan haldin í Góðtemplarahúsinu. Kirkjan var síðan vígð þann 14. desember sama ár og hafði þá tekið aðeins rúma þrjá mánuði að byggja hana. Af þessum sökum má segja að afmælisdagar safnaðarins séu þrír! Sem sagt þeir sem hér eru að framan greindir.

Í Fríkirkjunni í Hafnarfirði hafa verið mörkuð ýmis tímamót. Má þar til dæmis nefna að hún var fyrsta kirkjan sem reist var í Hafnarfirði á síðari tímum, fyrsta raflýsta kirkjan í landinu, frá henni var messu fyrst útvarpað til Íslendinga og hún er síðasta tvílofta timburkirkjan sem reist var hér á landi.

Þegar söfnuðurinn varð 30 ára var birt ítarleg umfjöllun um hann í Lesbók Morgunblaðisns. Umfjöllun blaðsins var birt sunnudaginn 18. apríl 1943.

Mynd. Kórinn áður en honum var breytt 1931.
Altarismyndin kom í kirkjuna 1921.

13 kirkjan-inni-fyrir-breytingar-1930 copyHér grípum við niður í grein Finnboga J. Arndal í fyrrgreindri Lesbók Morgunblaðsins þar sem hann skrifar m.a. um tilurð safnaðarins og kirkjuna (myndir eru fengnar frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og voru ekki í greininni):

„Söfnuðurinn var stofnaður 20. apríl 1913. Stofnfundurinn var haldinn þann dag í Barnaskólanum í Hafnarfirði. Var boðað til hans af nokkrum Hafnfirðingum, sem áhuga höfðu fyrir því að kirkja yrði reist í Hafnarfirði. Það mál hafði að vísu verið rætt og athugað um allmörg ár af sóknarmönnum Garðasóknar, en af ýmsum ástæðum, en þó sérstaklega vegna fjárhagslegra vandkvæða, átt erfitt uppdráttar fram að þeim tíma.

Til undirbúnings stofnfundinum hafði verið leitað undirtekta manna um stofnun Fríkirkjusafnaðar og höfðu nál. 100 menn tjáð sig fúsa til, að vera með um stofnun hans. – Mættu menn þessir flestir á fundinum og ákváðu að stofna söfnuðinn. Voru þá þegar samþykt lög fyrir hann, sem í gildi voru óbreytt þar til þau voru endursamin og gerðar á þeim nokkrar breytingar í apríl, 1934.

8_m166Austurgata árið 1923. Á stofnfundinum var samþykkt að ráða síra Ólaf Ólafsson, fríkirkjuprest í Reykjavík til þess að þjóna söfnuðinum fyrst um sinn. Hafði hann, eftir framkomnum tilmælum, tjáð sig fúsan til að taka þann starfa að sjer, ef til kæmi.

Samkvæmt lögum safnaðarins skyldi nafn hans vera: Hinn evangelisk- lútherski fríkirkjusöfnuður í Hafnarfirði, Garða- og Bessastaðahreppum.

Enn fremur er svo að orði komist í 1. gr. laganna: ,,…. og er fjelagsskapur þeirra manna og kvenna, sem eiga sameiginlega þá hugsjón, að halda uppi guðsþjónustum (messugerðum) og öðrum kirkjlegum athöfnum. Og eiga kirkjuhús með hljóðfæri, messuskrúðum og öðru tilheyrandi, útaf fyrir sig, óháð öllum, nema sínum eigin lögum, þar sem landslög nú eða síðar eigi banna slíkt”.

Stjórn safnaðarins skyldi vera í höndum fimm manna, er aðalfundur kýs til eins árs í senn. Atkvæðisrjett í safnaðarmálum skyldi hver sá safnaðarmaður hafa, sem væri 16 ára og eldri og greiddi gjöld til safnaðarþarfa. – Þess utan skyldu kosnir 2 safnaðarráðsmenn. Árið 1928 var þeim fjölgað um tvo. Eiga þeir að hafa á hendi samningu manntals fyrir söfnuðinn, endurskoðun reikninga hans, aðstoða við messugerðir og vera að öðru leyti prestinum til aðstoðar í andlegum málum safnaðarins.

8_m231Mynd tekin yfir miðbæinn 1921. Fyrstu guðs- þjónusturnar fóru fram í Góðtemplara- húsinu í Hafnarfirði – hin fyrsta, á sumardaginn fyrsta 1913, sem þá bar upp á 24. apríl. Hefir því sumardagurinn fyrsti jafnan verið talinn afmælisdagur safnaðarins.

Skömmu eftir stofnfundinn fjekk söfnuðurinn staðfestingu stjórnarráðsins á lögum sínum og öðlaðist þar með lögfullan tilverurjett með stjórnarráðsbrjefi, dagsettu 8. maí 1913 og var kosning síra Ólafs Ólafssonar sem forstöðumanns safnaðarins þá jafnframt staðfest.

Safnaðarmenn tóku nú brátt að hugsa til kirkjubyggingar. Var þeim það öllum brennandi áhugamál. Byrjuðu þeir með því að senda bæjarstjórn beiðni um nál. 400 ferm. lóð undir hina væntanlegu kirkju. Var kirkjunni kosinn staður á allhárri hraunbungu austan Austurgötu og sunnan Linnetsstígs. Er þaðan útsýn yfir allan kaupstaðinn og langt á sjó út.

Bæjarstjórn samþykti 15. júlí 1913, að leigja söfnuðinum lóð þessa, en tæpu ári síðar samþykti bæjarstjórnin, að söfnuðurinn skyldi framvegis halda lóð þessari afgjaldalaust.

Á safnaðarfundi 26. júlí s.á. var samþykt að ráðast í að byggja kirkjuna. Skyldi hún vera úr timbri, járnvarin. Var þá engin kirkja til í Hafnarfirði, eins og fyr er að vikið.

Kirkjuna skyldi reisa á fyr greindri lóð og hefja undirbúning að verkinu þegar í stað.

Gert var ráð fyrir að byggingin myndi ekki verða dýrari en kr. 8000.00. Var safnaðarstjórn falið að taka lán til byggingarinnar, gegn ábyrgð safnaðarins, en jafnframt voru innheimt fjárframlög, er lofað hafði veirð til kirkjubyggingarinnar og stjórninni falið að veita framhaldssamskotum viðtöku í sama skyni.

Seint í ágústmánuði var svo kirkjusmíðin hafin. Hafði verið tekið tilboði frá s.f. Dvergur í Hafnarfirði um smíðina og var þar lofað að gera sjálfa kirkjuna og bekki í hana og leggja til efni, hvorttveggja fyrir kr. 7900.00, en undanskilin var múrsmíð, málning, leiðslur og hitunartæki. Aðalumsjón með kirkjusmíðinni hafði trjesmíðameistarinn Guðmundur Einarsson, Davíð Kristjánsson trjesmíðameistari gerði teikningu af kirkjunni. – Báðir þessir menn voru meðal stofnenda safnaðarins.

Kirkjusmíðinni miðaði vel áfram og var henni lokið að öllu snemma í desembermánuði sama ár.

Kirkjan var vígð af presti safnaðarins, sr. Ól. Ólafssyni 14. des. 1913, eða rúmlega ári fyr en þjóðkirkjan í Hafnarfirði. Var fjölmenni mikið viðstatt vígsluathöfnina og þótti hún mikill viðburður í sögubæjarfjelagsins.

8_m3976bMynd tekin neðan úr miðbæ eftir breytingar á kirkjunni sem gerðar voru 1931.

Árið 1931 fór fram gagngerð viðgerð á kirkjunni. Var kórinn þá stækkaður að mun og turninn hækkaður og honum breytt verulega. Þess utan var kirkjan máluð utan og innan. Teikningar af hinum nýja kór og turni gerði Guðmundur Einarsson trjesmíðameistari, en smíðið framkvæmdi Haukur Jónsson trjesmíðameistari í Hafnarfirði og fjelagar hans. Málningu alla framkvæmdi Kristinn J. Magnússon, málarameistari í Hafnarfirði.

Eftir þessa miklu aðgerð og breytingar var kirkjan sem ný orðin. Einn af safnaðarmönnum, Jóhannes J. Reykdal versmiðjueigandi á Setbergi, gaf alt timbur sem fór í stækkun kórsins og Kvenfjelag safnaðarins kostaði málningu á kirkjunni að innan að öðru en kórnum. Um sama leyti gaf það fjelag kolaofn í kirkjuna, stóran og fullkominn, er mun hafa kostað um kr. 1.100.00.

Vegna þessarar miklu viðgerðar á kirkjunni varð söfnuðurinn að taka lán, 6000 kr., þrátt fyrir mikinn fjárhagslegan stuðning frá Kvenfjelagi safnaðarins og einstökum safnaðarmönnum.

Sunnudaginn 27. september 1931 var svo kirkjan endurvígð af presti safnaðarins, sr. Jóni Auðuns, að viðstöddu fjölmenni. Vígslan fór fram með miklum hátíðleik.

8_m1691bMynd tekin inni í kirkjunni. Sjá má að opið er að altarinu sem síðar var breytt. Stærð kirkjunnar er sem hjer segir: Lengd 11,40 m. Vegghæð 6.00 m. Breidd 10,20 m. Hæð frá gólfi til hvelfingar 9.80 m. Loftsvalir eru með báðum hliðum og loftpallur milli þeirra, utast fyrir söngflokk og hljóðfæri. Kórbyggingin við austurgafl kirkjunnar er 3.15×3.15 m. að stærð, hæð af kórgólfi til hvelfingar er 6.50 m. Við vesturgaflinn er forkirkja, þrílyft með turni, stærð 3.50×3.50. Hæð frá grunni og upp á turntopp er 19.50 m. – Undir kórgólfi er kjallari, sem notaður er sem líkhús og til geymslu.

Kirkjan rúmar í sæti um 350 manns. Raflýst er hún og í henni eru 4 fagrar ljósakrónur, gerðar úr glerkristöllum, auk annara ljóstækja.

Um leið og kirkjan var reist var lögð í hana rafmagnsleiðsla enda þótt að litlar líkur væru fyrir því, að raforka væri þá fáanleg til lýsingar kirkjunni, því um þær mundir gat rafmagnsstöð Hafnarfjarðar ekki fullnægt þörfum bæjarbúa. En safnaðarmenn sáu ráð til þess að bæta úr þessu. Þeir tóku sig saman um að spara ljós á heimilum sínum, þegar mest var þörf á ljósi í kirkjunni. Með þeim hætti fengu þeir næga orku til þess að lýsa hana.

Mun hjer vera að ræða um fyrstu kirkjuraflýsingu hjer á landi. Og þess má ennfremur geta, að frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði, barst landsmönnum fyrst guðsþjónusta á öldum útvarpsins. (Innsk.: Þetta mun hafa verið á sjómannadaginn árið 1926. Einkarekin útvarpsstöð, starfrækt í Reykjavík, útvarpaði messunni en þetta var fyrir daga Ríkisútvarpsins. Sjá nánar hér síðar.)

Lengi var það miklum erfiðleikum bundið að fá viðunandi hljóðfæri í kirkjuna og urðu um skeið nokkur mistök hjá söfnuðinum í því efni. En að lokum tókst, með tilstyrk Kvenfjelags safnaðarins og ríflegum samskotum safnaðarmanna o.fl., að fá ágætt hljóðfæri í kirkjuna. Er það harmonium, er kostaði nálægt 12 þúsund krónum. Það er með fótspili og 28 registrum. Mun það vera stærst þeirrar tegundar hjer á landi. Var það keypt í kirkjuna árið 1933, fyrir milligöngu Elísar Bjarasonar kennara í Reykjavík.

8_m329Sr. Kristinn Stefánsson í predikunarstóli. Hann var prestur Fríkirkjunnar í Hafnarfirði 1945-1966.Auk þess á kirkjan ýmsa verðmæta og góða gripi, svo sem: Altaristöflu, er sýnir mynd af Kristi. Hefir Ágúst listmálari Lárusson málað hana. Umgerð er um altaristöfluna, mjög sjerkennileg og fögur. Mun í engri kirkju hjér lendri vera um svipaðan umbúnað að ræða um altaristöflu. Er umbúnaður þessi smíðaður af Guðmundi Einarssyni trjesmíðameistara í Hafnarfirði, eftir fyrirsögn og teikningu fríkirkjuprestsins sr. Jóns Auðuns. Nýlega var kirkjunni gefin stór og fögur eftirmynd af hinu fræga málverki Rafaels, Madonna del cedia. Ermyndin í vönduðum ramma. Gefandinn vill ekki láta nafns síns getið. Skírnarfontur kirkjunnar og prjedikunarstóll eru skrautmálaðir eftir safnaðarkonuna frú Jóhönnu Davíðsson og þykir það gert af mikilli list.

Kirkjan á tvennan skrúða, fjólubláan, sem notaður erum föstutímann árlega og purpurarauðan, sem notaður er alla aðra tíma við messugerðir. Altarisdúkinn hefir gert ungfrú Petrína Halldórsdóttir, hannyrðakennari, og er hann talinn eitt af fegurstu verkum þeirrar tegundar. Tvenn tjöld á kirkjan, sem höfð eru fyrir kórdyrum, önnur hvít en hin rauð og eru þau notuð til skiftis, eftir því sem þykir við eiga. Ennfremur á kirkjan 6 altarisstjaka og tvo háa stjaka, til þess að standa á gólfi. Eru allir þessir stjakar sjöarmaðir. Auk þess á kirkjan nokkrar súlur, er ljóstjakar eru látnir standa á, svo og 4 blómsturvasa. Loks á kirkjan fagurt reykelsisker. Munir þessir eru allir hinir veglegustu.

Eins og áður er getið eru 4 ljósahjálmar í kirkjunni, gerðir úr glerkristöllum. – Tveir þeirra eru stórir og hanga í miðskipi kirkjunnar, en hinir eru minni og er annar þeirra í kór en hinn hangir yfir söngpalli.

Loks á kirkjan fagurlega gerðan kaleik úr silfri og oblátudisk úr sama efni. – Voru munir þessir gefnir kirkjunni af safnaðarkonunni, frú Sólveigu Benjamínsdóttur í Hafnarfirði til minningar um eiginmann hennar, Eirík Jónsson og þrjá syni þeirra hjóna, Benjamín, Bjarna og Jón Ágúst, er allir fórust á sjó.

Gólfteppi er á öllu kórgólfi og tepparenningar á göngum kirkjunnar.

8_m5079bMynd frá veislu fríkirkjufólks. Eins og fyr segir tók síra Ólafur Ólafsson fríkirkjuprestur í Reykjavík við forstöðu safnaðarins strax í upphafi og þjónaði honum til ágústloka árið 1930, eða í rúmlega 17 ár. Messaði hann annan hver sunnudag auk kvöldsöngva og hátíðamessugerða. Hann rækti prestsstarf sitt fyrir söfnuðinn af mikilli samviskusemi og alúð. Þar sem hann var búsettur í Reykjavík og samgöngur erfiðar áður en bifreiðar komu til sögunnar. Var oft örðugt fyrir hann, þá aldraðan orðinn, að rækja starfið. En hann ljet aldrei veður nje ófærð hefta för sína, enda var líkamlegu atgerfi hans, eigi síður en því andlega, viðbrugðið.”

Prestar safnaðarins frá upphafi
Sr. Ólafur Ólafsson 1913-1930.
Sr. Jón Auðuns 1930-1945.
Sr. Kristinn Stefánsson 1945-1966.
Sr. Bragi Benediktsson 1966-1971.
Sr. Guðmundur Óskar Ólafsson 1971-1974.
Sr. Magnús Guðjónsson 1974-1978.
Sr. Bernharður Guðmundsson 1978-1984.
Ásamt sr. Bernharði þjónuðu sr. Bragi Skúlason og sr. Jón Helgi Þórarinsson í eitt ár hvor.
Sr. Einar Eyjólfsson hefur þjónað frá árinu 1984.
Sr. Sigríður Kristín Helgadóttir hefur þjónað ásamt sr. Einari frá haustdögum 2000.

Kirkjan var síðast endurbætt árið 1998.

Fyrsta útvarpsmessan

Í grein Finnboga er sagt frá fyrstu útvarpsmessunni á Íslandi en það var sjómannaguðsþjónusta í Fríkirkjunni í Hafnarfirði þann 31. janúar 1926. Í Öldinni okkar segir svo frá þessum viðburði:

,,Kl. 2 í dag heldur séra Ólafur Ólafsson sjómannaguðsþjónustu í Hafnarfirði. Hefur útvarpsfélagið ákveðið að gera tilraun til að ná guðsþjónustunni í útvarpið og senda hana út. Er þess vænzt, að hún nái til togaranna, sem eru á veiðum, en flestir þeirra hafa gjallarhorn.
Er símþráður lagður í kirkjuna og áhald sett þar, er tekur við ræðunni og söngnum og ber til útvarpsstöðvarinnar á Melunum. Er fróðlegt að vita, hvernig þessi tilraun tekst, því þetta er í fyrsta skipti, sem reynt er að senda hér út ræðu.“

Og þann 3. febrúar segir svo frá skv. Öldinni okkar:

,,Ræða sér Ólafs Ólafssonar frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði, sú er hann talaði í útvarpið á sunnudaginn, mun hafa heyrzt mjög víða og langt. T.d. heyrðist hún vel á Gulltoppi vestur á Hala. Apríl heyrði og greinilega til ræðumanns, en skipið var 200 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum.“

Útvarpsstöðin sem flutti boðskap sr. Ólafs svo víða var einkaframtak þeirra Ottos B. Arnar símaverkfræðings og Lárusar Jóhannessonar lögfræðings sem óskuðu eftir því að fá sérleyfi til útvarpsrekstrar árið 1926 þar sem ljóst var að ríkið kæmi ekki slíkri starfsemi á fót í bráð. Félag þeirra í Reykjavík fékk slíkt leyfi þetta ár en reglulegar útvarpssendingar hófust þó ekki fyrr en nokkru eftir að sjómannamessunni var útvarpað þarna í ársbyrjun eða þann 18. mars, 1926. Sendir stöðvarinnar var í loftskeytastöðinni á Melunum í Reykjavík.

(Samantekt JGR / síðast breytt 11. júní 2010. Heimildir: Lesbók Morgunblaðsins 18. apríl 1943. Öldin okkar 1901-1930. Þorsteinn Gunnarsson: Erindi um kirkjur Íslands, flutt á Leiðarþingi Kjalarnessprófastsdæmis 9. október 2008. Ljósmyndir: Byggðasafn Hafnarfjarðar.)