Bræðrafélagið

Bræðrafélag Fríkirkjunnar er virkur félagsskapur en það var endurvakið með formlegum endurstofnfundi 16. nóvember 2011.

C12M kirkjuþak-nota copy 2Hlutverk Bræðrafélagsins miðast við að efla félagstarfið og vera stuðningur við kirkjuna og Fríkirkjusöfnuðinn. Meðal verkefna er sjá um að halda umhverfi kirkjunnar og safnaðarheimilis snyrtilegu, vera ráðgefandi um stærri viðhaldsverkefni og taka saman til hendinni við smærri lagfæringar og betrumbætur.  En Bræðrafélagið er líka jákvæður og opinn félagsskapur allra manna sem vilja láta gott af sér leiða fyrir kirkjuna og safnaðarstarfið.

Á myndinni má sjá bræðrafélaga taka til hendinni árið 2012 þegar skipt var um þakið á kirkjunni og fleira gagnlegt gert.

Bræðrafélagið er ekki með fasta dagskrá, en við hittumst  oftast á laugardagsmorgnum eftir efnum og aðstæðum hverju sinni.  Árgjald er 2.000. kr.

Stjórn skipa:
Matti Ósvald Stefánsson, form
Helgi Freyr Kristinsson, gjaldk

go Sigurgeir Tryggvason

 

Allir fríkirkjumenn eru hvattir til þess að skrá sig í Bræðrafélagið.  

Nánari upplýsingar veitir Einar Sveinbjörnsson í síma: 857-1799 og í tölvupósti, [email protected]

SAGAN

Hinn 27. september 1930 stofnuðu nokkrir karlmenn í Fríkirkjusöfnuðinum Bræðrafélag Fríkirkjusafnaðarins í því skyni að styðja og styrkja safnaðarlífið, bæði í andlegu og efnalegu tilliti, en meginmarkmið félagsins var að koma upp íbúðarhúsi handa presti safnaðarins. Hafinn var undirbúningur að smíði prestssetursins þegar eftir stofnun félagsins. Húsið var steinsteypt, byggt að Tjarnarbraut 7 og það var afhent safnaðarstjórninni ári síðar. Í húsinu mátti presturinn búa án þess að greiða leigu en hann átti þó að borga vatnsskatt, holræsagjald og rafmagn.

Margir félagar í söfnuðinum unnu við bygginguna en aðrir lánuðu peninga vaxtalaust til verksins, samtals 5.000 krónur. Hins vegar þurfti Bræðrafélagið lengi vel að afla fjár til að geiða af lánum sem tekin voru auk þeirra sem félagar höfðu sjálfir lánað. Var það gert með árgjöldum og frjálsum framlögum, hlutaveltum, útiskemmtunum og fleiri samkomum sem alltaf var gert í samráði við kvenfélag Fríkirkjunnar og stundum safnaðarstjórn þannig að ágóðanum var skipt jafnt milli aðila.

Þegar presturinn fluttist til Reykjavíkur árið 1945 en þjónaði áfram Fríkirkjunni í Hafnarfirði var ákveðið að selja húsið og nota andvirðið til að greiða skuldir félagsins og einnig dugði það til að greiða allar skuldir Fríkirkjunnar sjálfrar. Afgangurinn var ávaxtaður og vextirnir notaðir til að styðja við safnaðarstarfið. Félagar í Bræðrafélaginu lögðu síðan kirkjustarfinu til peninga þegar þess þurfti, sá um lagfæringar á lóð kirkjunnar, málningu hennar innan og utan og gaf sálmabækur og söngbækur fyrir barnasamkomur á vegum kvenfélagsins.

Starfsemi Bræðrafélagsins lá niðri í áratugi, allt þar til það var endurvakið eins og að framan greinir 16. nóvember 2011 og varð strax mjög virkur félagsskapur.

(jgr / Heimildir: Lesbók Morgunblaðsins, 18. apríl, 1943 og Saga Hafnarfjarðar, 2. bindi, bls. 409-411.)