Grein í Fjarðapóstinum sem birtist 8. febrúar sl.
Gott Fríkirkjuár
Síðasta ár var einkar farsælt í Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Kirkjan er vinsæl, athafnir eru alla jafna vel sóttar. Þá er barnastarfið kröftugt, sunnudagaskólinn blómstrar og starfandi eru kórar og krílasálmar. Tónlistin í kirkjustarfinu lýtur síðan eigin lögmálum þar sem blandað er hefðum og nýjungum. Enn eitt árið fjölgaði í söfnuðinum og er það til marks um að Fríkirkjan sé á réttri leið.
Á síðasta ári (2017) voru í tvígang sendir greiðsluseðlar til safnaðarfólks í Fríkirkjunni að upphæð 2.100 kr Viðtökurnar voru mjög góðar og ánægjulegt að segja frá því að fyrir þá upphæð sem safnaðist var hægt að greiða fyrir kostnaðarsamar endurbætur á kirkjunni, m.a. fyrir málun á allri kirkjunn sl. sumar eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Fríkirkjan í Hafnarfirði nýtur þeirrar sérstöðu að vera alfarið í eigu safnaðarins. Við stjórnum okkur sjálf, án íhlutunar stjórnvalda eða annara kirkjudeilda. Safnaðarstarfið er farsælt og margir leyta til kirkjunnar í gleði og sorg eins og þar stendur. Sóknargjöld sem innheimt eru með tekjuskatti hvers og eins eru helsti tekjustofn Fríkirkjunnar og duga rétt svo í það að halda úti starfinu með tvo presta í fullu starfi, tónlistarstjóra, barnastarf o.fl. Fríkirkjan býr ekki við það að samningur séu um beinar launagreiðlur til presta og Fríkirkjur eiga ekki rétt á að sækja til jöfnunarsjóðs kirkna þó svo að hluti sóknargjalda renni þangað. Við stöndum einfaldlega sjálf straum af öllum kostnaði.
Við í Fríkirkjunni myndum söfnuðinn, veljum að tilheyra honum af fúsum og frjálsum vilja. Þess vegna er gríðarmikilvægt að finna þennan velvilja þegar safna þarf fyrir verkefnum sem bíða okkar. Fyrir dyrum standa lagfæringar á kirkjutröppunum og endurbætur á hitakerfi. Þá þarf næst að gera endurbætur á safnaðarheimilinu, laga aðgengi. Viðraðar hafa verið hugmyndir um stækkun þess og gert grein fyrir deiliskipulagsbreytingum á Linnetsstíg sem nú hafa verið samþykktar af bænum athugsemdalaust af hálfu okkar góðu nágranna.