Sálgæsla

Í Fríkirkjunni í Hafnarfirði er sálgæsla mikilvægur hluti af starfi prestanna. Í sálgæslunni er einstaklingnum mætt þar sem hann er staddur hverju sinni og þarfnast nærveru, kærleika, hlustunar og skilnings.

 

Það geta komið tímabil í lífi allra þar sem erfiðleikar, tilgangsleysi eða sárar tilfinningar knýja dyra. Á þeim stundum getur það reynst fólki erfitt að opna á líðanina og vinna úr tilfinningunum. Missir, veikindi okkar sjálfra eða ástvina, hjónaskilnaðir, atvinnumissir og erfið samskipti eru dæmi um krefjandi verkefni, sérstaklega til að takast á við einn. Enginn á að þurfa að burðast einangraður með vanlíðanina. Sálgæslan er því gagnleg hverjum þeim sem finnur til.

 

Sálgæslan stendur öllum til boða, óháð lífsskoðunum eða trúarafstöðu. Hún byggir á þeim grunni að hlúa að fólki og er hluti af köllun presta, sem hljóta menntun til að gæta sálarinnar. Umhyggjan fyrir náunganum er leiðarljósið sem unnið er út frá.

 

Sálgæsla í Fríkirkjunni í Hafnarfirði er kærleiksþjónusta öllum að kostnaðarlausu og hægt er að bóka viðtal við presta kirkjunnar í síma 565-3430 eða senda tölvupóst á milla@frikirkja.is eða einar@frikirkja.is.

Prestar, sem og aðrir starfsmenn safnaðarins, eru bundnir þagnarskyldu að því marki sem lög leyfa.