Við viljum sjá þig í Fríkirkjunni í Hafnarfirði.

Hjónavígsla

Hjónavígsla í kirkju er helgiathöfn þar sem brúðhjón gefast hvort öðru og lofa að standa saman í gleði og sorg og styðja hvort annað af kærleika og virðingu. Hjónabandið er jafningjasamband tveggja einstaklinga sem, með návist Guðs, fá styrk og kærleika til að takast á við öll þau verkefni sem lífið lætur að höndum bera.

Gifting er lögformleg athöfn sem prestur kirkjunnar annast. Athöfnin getur farið fram með fjölbreyttum hætti. Algengast er að hjónavígsla fari fram í kirkjunni í sérstakri athöfn. Einnig er hægt að giftast í almennri guðsþjónustu, sem og í heimahúsi eða utandyra. Við athöfnina fá hjónaefnin fyrirbæn og blessunaróskir um hamingjuríka framtíð með kærleika Guðs að leiðarljósi.

Hægt er að óska eftir hjónavígslu með því að hringja í kirkjuna í síma: 565-3430. Einnig er hægt að senda tölvupóst á presta kirkjunnar einar@frikirkja.is eða milla@frikirkja.is. Verið hjartanlega velkomin í Fríkirkjuna í Hafnarfirði.

Gagnlegar upplýsingar við skipulagninu hjónavígslu:

  • Ákveða dagsetningu.
  • Bóka prest, kirkju og tónlistarfólk.
  • Sækja um hjúskaparstöðurvottorð og fæðingarvottorð sem getur tekið tvo virka daga.
  • Hitta prest í samtal fyrir hjónavígslu, þar sem samtal um hjónabandið fer fram ásamt undirbúningi fyrir hjónavígsluna sjálfa.

Útför

Við andlát ástvina er að mörgu að huga en prestar kirkjunnar leitast við að veita aðstandendum stuðning og aðstoð á erfiðum tímamótum. Vitjun til deyjandi, bænastund við dánarbeð, kistulagning, útför og eftirfylgni við aðstandendur eru allt hluti af verkefnum presta þegar andlát verður, í góðu samstarfi við tónlistarfólk og útfararþjónustu.

Við ástvinamissi er mikilvægt að aðstandendur standi saman og tali um þá atburði sem orðið hafa og leiti styrks hjá hverjum öðrum. Huga þarf vel að börnum sem verða fyrir missi og leyfa þeim að vera með í því sem við tekur í sorginni. Einlægt og heiðarlegt samtal um það sem gerst hefur er mikilvægt fyrir alla, sem og það að gefa öllum tilfinningum sem fylgja sorginni rými.

Eftir andlát fer oftast fram kistulagning í kirkju eða kapellu, þar sem allra nánustu aðstandendur fá tækifæri til að kveðja látinn ástvin.

Útförin er guðsþjónusta sem fram fer eftir kistulagningu, þar sem fjölskylda og vinir fá tækifæri til að kveðja og minnast samfylgdarinnar við látna ástvininn.

Eftir útför fylgir presturinn aðstandendum í kirkjugarðinn þar sem jarðsetning fer fram. Ef bálför fer fram, er jarðsetning duftkers síðar, sem prestur getur tekið þátt í með aðstandendum.

Hægt er að nálgast presta kirkjunnar í síma: 565-3430. Einnig er hægt að senda tölvupóst á einar@frikirkja.is eða milla@frikirkja.is. Verið hjartanlega velkomin í Fríkirkjuna í Hafnarfirði.

Gagnlegar upplýsingar við andlát:

  • Hringja í prest.
  • Bóka útfararþjónustu.
  • Ákveða dagsetningu.
  • Bóka tónlistarfólk.
  • Hitta prest, starfsfólk útfararþjónustu og tónlistarfólk í viðtal vegna skipulagningar útfarar.

Skírn

Skírnin er dýrmæt og hátíðleg athöfn innan kirkjunnar. Skírnin er heilög, sakramenti, þar sem við þökkum Guði fyrir þá dýrmætu manneskju sem tekur skírn, blessum hana og biðjum Guð að vera nálægur í öllu því sem framtíðin ber í skauti sér.

Þrátt fyrir að algengast sé að skíra ung börn í kirkju, geta allir tekið skírn hvenær sem er á lífsleiðinni, þ.m.t. ungmenni sem óska eftir því að fermast. Skírnin getur farið fram við guðsþjónustu, í sérstakri athöfn í kirkjunni eða heimahúsi.

Ekkert gjald er tekið fyrir skírn við Fríkirkjuna í Hafnarfirði.

Hægt er að bóka skírn með því að hringja í kirkjuna í síma: 565-3430. Einnig er hægt að senda tölvupóst á presta kirkjunnar einar@frikirkja.is eða milla@frikirkja.is. Verið hjartanlega velkomin í Fríkirkjuna í Hafnarfirði.