Sunnudagaskóli kl. 11:00

Sunnudagaskólinn er dásamleg samvera fyrir fjölskyldur og vini á öllum aldri. Í sunnudagaskólanum komum við saman og gleðjumst yfir lífinu og tilverunni. Börn á öllum aldri eru hjartanlega velkomin. Á sunnudögum fyllist litla fjölskyldukirkjan okkar af börnum sem fá að skottast um og dansa með okkar frábæru hljómsveit, Fríkirkjubandinu.

Í sunnudagaskólanum tölum við um kærleikann, gleðina og þakklætið og hvað það er að vera manneskja. Hvernig við bregðumst við mótlæti og erfiðum tilfinningum. Við minnum okkur á að við erum öll dýrmæt og hvað það skiptir miklu máli að koma fallega fram. Við setjumst í kærleikshringinn okkar og biðjum fyrir því að allar manneskjur fái að lifa í friði.

Það er gott að koma í sunnudagaskólann. Sunnudagaskólinn er fyrir fólk á öllum aldri.

Um sunnudagaskólann sjá Erna Blöndal og Edda Möller ásamt prestum kirkjunnar, Einari, Ingu og Millu. Hljómsveit kirkjunnar spilar undir dyggri stjórn tónlistarstjórans Arnar Arnarssonar. Auk þess koma góðir gestir reglulega í heimsókn.

Sunnudagaskólinn hefst í september mánuði og endar með fjölskylduhátíð í byrjun maí.

Krílasálmar

Tónlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 3ja til 16 mánaða í fylgd með foreldrum.

Þriðjudagar kl. 10:30 – 11:10.

(Við bendum á Yngri Krílakór fyrir foreldra sem komast ekki á morgnana.)

Krílasálmar eru tónlistarstundir fyrir ung börn og foreldra þeirra, þar sem tónlist er notuð til að styrkja tengslamyndun og örva börnin. Í tímunum er notast við sálma, íslensk þjóðlög og þekkt barnalög, yfirtónarík hljóðfæri og forvitnilegan hljóðheim. Við syngjum fyrir börnin, vöggum þeim og dönsum og á þann hátt fá þau upplifun af tónlistinni sem hefur góð áhrif á tilfinninga- og hreyfiþroska þeirra. Það krefst engrar sérkunnáttu að syngja fyrir börnin okkar. Fyrir þitt barn er þín rödd það fallegasta í öllum heiminum, alveg sama hvernig hún hljómar.

Foreldrar meta ásamt leiðbeinanda út frá verkefnum hversu snemma ungabörnin eru tilbúin.

Umsjónarmenn eru Erna Blöndal og Örn Arnarson.

Krílakórar

Krílakór yngri

Mánudagar kl. 16:30 – 17:00.

Tónlistarnámskeið fyrir 1 árs – 2ja ára börn í fylgd með foreldrum – 1/2 klst.

Framhald af krílasálmum og undirbúningur hefst fyrir kórastarf – sungið, leikið með rytma og tónlistartákn og ævintýraheimur tónlistarinnar kannaður á skemmtilegan hátt með hlustun, leikjum og hljóðfæraleik.

Krílakór eldri

Mánudagar kl. 17:00 – 17:30.

Tónlistarnámskeið fyrir 3ja og 4ra ára börn í fylgd með foreldrum – 1/2 klst.

Áframhaldandi undirbúningur fyrir kórastarf – sungið, leikið með rytma og tónlistartákn og ævintýraheimur tónlistarinnar kannaður á skemmtilegan hátt með hlustun, leikjum og hljóðfæraleik.

Stjórnendur eru Erna Blöndal og Örn Arnarson

Litli kór og Barnakór Fríkirkjunnar í Hafnarfirði

Litli kórinn er fyrir börn á aldrinum 5 og 6 ára. Hér er um að ræða framhald fyrir Krílakórabörn en að sjálfsögðu eru öll börn hjartanlega velkomin.

Barnakórinn er fyrir grunnskólabörn í 2. – 6. bekk

Æfingar fara fram á fimmtudögum í tveimur hópum.

Litli kór (5-6 ára)
17:00 – 17:30

Barnakór (2. – 6. bekkur)
17:30 – 18:15

Kórstjórar: Auður Guðjohnsen og Erna Blöndal.