Sunnudagaskóli

Verið hjartanlega velkomin í sunnudagaskólann okkar kl. 11 alla sunnudaga yfir vetrartímann í fallegu kirkjunni okkar. Það má með sanni segja að þar sé sannkölluð fjölskylduhátið hvern sunnudag, þar sem söngur, lifandi tónlist, fræðsla og leikir eru í hávegum höfð. Frábær og vinsæl fjölskyldustund fyrir unga sem aldna.

Um sunnudagaskólann sjá Erna Blöndal, ásamt prestum kirkjunnar, Einari Eyjólfssyni og Margréti Lilju Vilmundardóttur. Hljómsveit kirkjunnar spilar undir dyggri stjórn tónlistarstjórans Arnar Arnarssonar. Auk þess koma góðir gestir reglulega í heimsókn.

Hlökkum til að vera með ykkur í vetur.

Krílasálmar

Tónlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 3ja til 18 mánaða í fylgd með foreldrum.

Þriðjudagar kl. 10:30 – 11:15. Hefjast 6. september.
Þáttökugjald: 7.500 kr. fyrir eina önn.

(Við bendum á Yngri Krílakór fyrir foreldra sem komast ekki á morgnana.)

Krílasálmar eru tónlistarstundir fyrir ung börn og foreldra þeirra, þar sem tónlist er notuð til að styrkja tengslamyndun og örva börnin. Í tímunum er notast við sálma, íslensk þjóðlög og þekkt barnalög, yfirtónarík hljóðfæri og forvitnilegan hljóðheim. Við syngjum fyrir börnin, vöggum þeim og dönsum og á þann hátt fá þau upplifun af tónlistinni sem hefur góð áhrif á tilfinninga- og hreyfiþroska þeirra. Það krefst engrar sérkunnáttu að syngja fyrir börnin okkar. Fyrir þitt barn er þín rödd það fallegasta í öllum heiminum, alveg sama hvernig hún hljómar.

Foreldrar meta ásamt leiðbeinanda út frá verkefnum hversu snemma ungabörnin eru tilbúin.

Einnig hvort að hætta þurfi aðeins fyrr vegna framfara í hreyfigetu því taka verður tillit til þess að unnið er á gólfi þar sem ungabörnin liggja og því þarf að fylgjast vel með þeim sem komin eru á fætur.

Umsjónarmenn eru Erna Blöndal og Örn Arnarson.

Krílakórar

Krílakór yngri:

Þriðjudagar kl. 16:30 – 17:00.  Hefst 7. september.
Þáttökugjald:  7.500 kr. fyrir eina önn.

Tónlistarnámskeið fyrir 1 árs – 2ja ára börn í fylgd með foreldrum – 1/2 klst.

Framhald af krílasálmum og undirbúningur hefst fyrir kórastarf – sungið, leikið með rytma og tónlistartákn og ævintýraheimur tónlistarinnar kannaður á skemmtilegan hátt með hlustun, leikjum og hljóðfæraleik.

Krílakór eldri:

Þriðjudagar kl. 17:00 – 17:30.  Hefst 7. september.
Þátttökugjald: 7.500 kr. fyrir eina önn.

Tónlistarnámskeið fyrir 3ja, 4ra og 5 ára börn í fylgd með foreldrum – 1/2 klst.

Áframhaldandi undirbúningur fyrir kórastarf – sungið, leikið með rytma og tónlistartákn og ævintýraheimur tónlistarinnar kannaður á skemmtilegan hátt með hlustun, leikjum og hljóðfæraleik.

Stjórnendur eru Erna Blöndal og Örn Arnarson

Krakkakór

Kórnámskeið fyrir börn á aldrinum 6 – 8 ára.

Miðvikudagar  kl. 16:30 – 17:10
Þátttökugjald:  9.500 kr. fyrir eina önn.
Æfingar hefjast miðvikudaginn 8. september og munu fara fram í safnaðarheimili kirkjunnar.
Hægt er að sækja um frístundastyrk hjá Hafnarfjarðarbæ.

Krakkakórinn er framhald af Krílakórunum en nú fara börnin að æfa sig af fullu kappi við að syngja í kór með öllu tilheyrandi. Rytmaskyn, hlustun og raddþjálfun. Framkoma, agi og stjórnendafylgni. Tónlistartákn og hljóðfæri skoðuð og ævintýraheimur tónlistarinnar kannaður.

Kórstjórar eru Erna Blöndal og Auður Guðjohnsen.

Söng- og tónlistarnámskeið

Aldur: 9 – 12 ára

Æfingar á miðvikudögum í safnaðarheimilinu kl. 17:15 til 18:00.
Þáttökugjald: 15.000 fyrir eina önn

Hægt er að sækja um frístundastyrk hjá Hafnarfjarðarbæ.

Þátttakendur fá góða undirstöðu í söng og framkomu þar sem áhersla er lögð á að styrkja/efla styrkleika hvers og eins. Fjölbreyttar og flæðandi aðferðir í formi leikja, hópstyrkingaræfinga, samsöngs og hlustunar.

Raddbeiting, rytmi, mígrafónatækni og sviðsframkoma.

Kennarar með áralanga og víðtæka reynslu af söng- og tónlistarstarfi með börnum.

Umsjón með námskeiðinu hafa þær Erna Blöndal og Auður Guðjohnsen

Tónsmiðja

Aldur: 13 – 15 ára.
Fimmtudagar  16:30 – 17:30.  Hefst 9. september.
Þátttökugjald:  15.000 kr. fyrir eina önn.
Hægt er að sækja um frístundastyrk hjá Hafnarfjarðarbæ.

Tónsmiðjan er tónlistarnámskeið þar sem áhersla verður lögð á söng, samsöng, röddun, míkrafónatækni, framkomu og margt fleira.

Stjórnendur eru Erna Blöndal og Auður Guðjohnsen.