14. desember verða 105 ár frá vígslu Fríkikjunnar í Hafnarfirði.
Stofnfundur Fríkirkjusafnaðarins var sumardaginn fyrsta 1913. Kirkjan stóð fullbúin og vígð 14. desember sama ár af fyrsta presti safnaðarins Ólafi Ólafssyni. Það var trésmiðjan Dvergur sem stóð svo snöfurmannlega að verki, umsamið verð eftir tilboð: 7.900 kr.
Fríkirkjan var síðasta tvílofta timburkirkjan sem reist var á landinu. Og hún stendur enn keik á klettinum trausta 105 árum síðar. Örlítið stækkuð með kór og úthýsum. Turninum var líka breytt og hann hækkaður. Laust fyrir aldamótin voru gerðar gagngerar endurbætur utan sem innan í samvinnu við Minjavernd og Þorsteinn Gunnarsson arkitekt.
Kirkjan er friðlýst og fær gott viðhald. Hún tekur 280 manns í sæti að meðtöldu kirkjuloftinu. Ekki með stærstu kirkjum landsins, en rúmgóð og gott guðshús.
Tæplega 300 manns stofnuðu Fríkirkjusöfnuðinn í Hafnarfirði, Garða- og Bessastaðahreppum. Nú eru um 7.000 manns í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og söfnuðurinn opinn öllum landsmönnum.
En umfram allt er Fríkirkjufólk stolt af kirkjunni sinni, sem geymir margar minningar og sögur kynslóðanna í blíðu og stríðu.