Þann 18. janúar sl. komu afkomendur Jóhannesar J. Reykdals saman í kirkjunni en í ár eru 150 ár liðin frá fæðingu Jóhannesar Reykdals.

Jóhannes Reykdal var talinn einn af brautryðjendum í atvinnulífi þjóðarinnar í upphafi síðustu aldar.

Þann 18. janúar sl. voru liðin 150 ár frá fæðingu hins merka framkvæmdamanns, Jóhannesar Reykdals, sem var talinn einn hinna ágætustu brautryðjenda í atvinnulífi þjóðarinnar í upphafi síðustu aldar.

Jóhannes fæddist 18. janúar 1874 að Vallakoti í Reykjadal. Foreldrar hans voru Jóhannes Magnússon bóndi og Ásdís Ólafsdóttir. Þau hjón áttu 15 börn, og var Jóhannes yngstur þeirra.

Foreldrar Jóhannesar brugðu búi árið 1880 og bjuggu síðan á nokkrum stöðum, meðal annars á Illugastöðum í Fnjóskadal, en eftir fráfall föður síns flyst Jóhannes til Akureyrar með móður sinni og lærir trésmíði hjá Snorra Jónssyni og er þar til ársins 1898. Þá fór hann 24 ára að aldri til Kaupmannahafnar til frekara náms og var þar á þriðja ár við það nám. Vorið 1901 kom Jóhannes til Reykjavíkur og vann þar við smíðar í eitt ár en flyst svo til Hafnarfjarðar.

Strax árið eftir komuna til Hafnarfjarðar reisti hann trésmíðaverkstæði við lækinn, hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi, en í verksmiðjunni voru átta smíðavélar sem knúnar voru með vatnsafli, sem var nýjung hér á landi.

Þegar hann dvaldi við námið í Kaupmannahöfn þá fór hann til Noregs og heimsótti Margréti systur sína sem bjó þá í Stafangri. Þar kynntist hann því hvernig Norðmenn virkjuðu vatnsafl til rafmagnsframleiðslu. Hann fór því að velta fyrir sér hvort ekki mætti nýta vatnsaflið líka til þess að framleiða rafmagn til að lýsa upp verkstæðið og jafnvel fleiri hús.

Árið 1904 fór Jóhannes til Noregs til að kaupa rafal til að koma þessari hugmynd í framkvæmd. Rafallinn dugði til að lýsa samtals 15 hús auk trésmiðjunnar í þessum fyrsta áfanga, sem fengu rafljós þann 12. desember 1904. Það eru því 120 ár á þessu ári frá fyrstu rafvæðingu á Íslandi.

En Jóhannes lét hér ekki staðar numið og reisti aðra rafstöð ofar við lækinn á Hörðuvöllum árið 1906 sem varð þar með fyrsta sjálfstæða rafstöðin á landinu.

Jóhannes hafði þann háttinn á að leigja perur til raflýsingar. Það kostaði þá sex krónur að leigja 25 watta peru á ári og aðeins var hægt að hafa kveikt á tveimur perum í einu í hverju húsi og ef það þurfti voru perur einfaldlega fluttar á milli perustæða.

Í tilefni af 100 ára afmæli fyrstu virkjunarinnar ákvað Samorka að færa Hafnfirðingum að gjöf túrbínu og rafal af sömu stærð og fyrstu vélar Jóhannesar voru árið 1904. Það var Reykdalsfélagið sem bar síðan hitann og þungann af því verki og er stöðvarhús virkjunarinnar í undirgöngunum undir Lækjargötu í Hafnarfirði og fær vatnið úr upphaflegu stíflunni ofar í læknum, en virkjuninni var ætlað að þjóna kennslu í Iðnskólanum í Hafnarfirði og ekki síður að vera minnisvarði um þær sögulegu framfarir sem virkjunin var á sínum tíma.

Reykdalsfélagið afhenti Hafnarfjarðarbæ virkjunina árið 2018 en því miður hefur henni ekki verið sýndur sá sómi sem þetta framtak ætti skilið.

Árið 1909 seldi Jóhannes Hafnarfjarðarbæ rafstöðvarnar og samhliða seldi hann tólf Hafnfirðingum trésmíðaverkstæðið, keypti jörðina Setberg og gerðist bóndi, var fyrst með ráðsmann í tvö ár, en flutti síðan sjálfur með fjölskylduna árið 1911.

Á þessum árum var hann einn þeirra sem stofnuðu fríkirkjusöfnuð í Hafnarfirði og var fyrsti safnaðarformaður og sumarið 1913 reisti Fríkirkjusöfnuðurinn nýja kirkju á þremur mánuðum. Nýja kirkjan var að sjálfsögðu raflýst, sú fyrsta hérlendis, og þá tók safnaðarfólk með sér ljósaperur að heiman til að lýsa upp kirkjuna við messur.

En athafnamaðurinn hélt áfram uppbyggingu því árið 1920 byggði Jóhannes nýja trésmiðju og timburverslun við lækinn fyrir neðan Setberg.

Árið 1926 reisti Jóhannes íshús við lækinn og seldi útgerðarmönnum ís til að kæla fisk.

Ástæða þess að Jóhannes afi minn settist að í Hafnarfirði var sú að þegar hann kom heim frá námi sínu í Danmörku þá kynntist hann ungri stúlku, Þórunni Böðvarsdóttur, dóttur Böðvars Böðvarssonar gestgjafa í Hafnarfirði, og þau voru gefin saman í hjónaband þann 15. maí 1904.

Þau eignuðust tólf börn, tvö létust í æsku og fimm barnanna létust síðar úr berklaveiki. Móðir Jóhannesar var með honum á meðan hún lifði og haft er eftir honum að hann eigi mest að þakka sinni góðu móður, og ekki síður Þórunni ömmu minni fyrir það að hafa staðið við hlið hans öll þessi ár.

Jóhannes Reykdal andaðist þann 1. ágúst 1946, 72 ára að aldri.

Ljúkum þessari stuttu upprifjun á ævi Jóhannesar á brotum úr minningargreinum við fráfall hans:

Bjarni Snæbjörnsson læknir í Hafnarfirði skrifaði eftirfarandi: „Jóhannes var ákafamaður og ör í lund, en drengur hinn besti og alltaf boðinn og búinn að leysa vandamál annarra. Hugkvæmni hans, áhugi og dugnaður minnkaði ekki þótt aldurinn færðist yfir hann og hann kunni ekki að hlífa sér“.

Og móðurafi minn, Árni G. Eylands, sem þekkti föðurafa minn mjög vel skrifaði: „Jóhannesar Reykdals er í dag minnst víðast um landið sem hins athafnamikla orkumanns sem um áratugi kom mjög víða við sögu iðnaðarframkvæmda í landinu. Mannsins sem reisti fyrstu rafstöðina og fyrstu trésmiðjuna.“

Eftir Jóhannes Reykdal

Höfundur er barnabarn Jóhannesar J. Reykdals.