Á síðustu árum hefur safnaðarfólki Fríkirkjunnar fjölgað verulega.

Árið 2000 voru 3.337 manns skráðir í söfnuðinn, árið 2016 voru 6.479 skráðir og um síðustu áramót var fjöldi safnaðarfólks 7.645.

Samhliða þessu hefur safnaðarstarfið verið að eflast og það eitt að hér fermast á þriðja hundrað ungmenni á þessu ári segir allt um stöðu Fríkirkjunnar í samfélagi okkar hér i Hafnarfirði. Þetta er meirihluti allra ungmenna í bænum. Í kirkjunni er einnig til staðar mjög öflugt tónlistarstarf fyrir börn og ungmenni auk þess sem kirkjan leggur sig fram um að sinna vel þeim einstaklingum í okkar samfélagi sem þurfa sérstaklega á stuðningi að halda. Margir einstaklingar leita einnig til presta kirkjunnar eftir sálgæslu í kjölfar áfalla af ýmsum toga.

Til að geta haldið uppi þessari öflugu þjónustu og safnaðarstarfi er mikilvægt að þeir einstaklingar sem þiggja þjónustu frá kirkjunni skrái sig í söfnuðinn. Þetta er einfalt að gera inn á vefsíðunni skra.is og mig langar að hvetja alla þá sem þiggja þjónustu frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði að fara inn á þessa vefsíðu og ganga úr skugga um að þeir séu skráðir í söfnuðinn.

Í samanburði við Þjóðkirkjuna þá þarf Fríkirkjan að borga laun presta af sóknargjöldum sem þjóðkirkjusöfnuðir þurfa ekki að gera. Þetta veldur því að Fríkirkjusöfnuðir þurfa að hafa talsvert meira fyrir hlutunum til að tryggja öflugt og gott starf.

Árið 1997 var lagður mikill metnaður í að endurnýja kirkjuna í hólf og gólf og tókst frábærlega. Þessi glæsilega bárujárnskirkja blasir fallega við mannlífi í bárujárnshúsabyggðinni í miðbæ Hafnarfjarðar en framkvæmdin var gerð í nánu samstarfi við minjavernd.

Safnaðarheimilið þarfnast nú verulegra endurbóta auk þess sem starfið er búið að sprengja húsnæðið utan af sér. Nú er verið að teikna smekklegar viðbyggingar við safnaðarheimilið þannig að húsið sjálft mun njóta sín vel og verða til sóma í umhverfi gömlu húsanna í miðbænum. Bárujárnsklætt að sjálfssögðu. Útlit hefur ekki verið endanlega ákveðið en til gamans birtum við af og til myndir af þeim hugmyndum sem koma upp í ferlinu.

Það er mikilvægt að hafa það í huga að safnaðarheimili í miðbæ Hafnarfjarðar er einnig menningarhús þar sem margvísleg starfsemi fer fram og munu möguleikar aukast verulega við stækkunina. T.d. starfa nú í húsinu tvær öflugar AA deildir auk annars mikilvægs félagsstarfs. Við þessa stækkun verður til dæmis til staðar fallegur og góður salur á aðalhæð hússins sem bæði er hægt að til að styðja við mikilvægt félagsstarf og eins mun safnaðarfólk geta leigt þennan sal fyrir ýmsar veislur gegn sanngjörnu verði.

Vegna þessara framkvæmda þurfum við nú að fara af stað og safna. Safnaðarstjórn mun sem fyrr hafa tvær safnanir á ári og senda beiðnir til safnaðarfólksins. Þetta eru valgreiðslur.

Við tökum nú fyrstu skrefin í löngu ferli.

Styrktaraðili: Samhliða valgreiðslum sem sendar verða út tvisvar á ári núna að upphæð 2.500 kr. stendur til að bjóða fólki að borga mánaðarlega til kirkjunnar í 1-2 ár fasta greiðslu, ( 2-4000 krónur og að sjálfssögðu meira þau sem það vilja og geta).

Söfnunarreikningur: 0545-26-005159 kt. 560169-5159

Þá er líka ætlunin að leita eftir stuðningi fyrirtækja.

Þess ber að geta að Fríkirkjan í Hafnarfirði er almannaheillafélag samkvæmt skilgreiningu skattsins og styrkir/gjafir geta því veitt bæði einstaklingum og fyrirtækjum skattaafslátt.

Hlýjar kveðjur,

Einar Eyjólfsson, prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði