Þrítugasta og fjórða vorhátíð Fríkirkjunnar fór fram á sunnudaginn!

Vorhátíð Fríkirkjunnar í Hafnarfirði á sér langa sögu. Í tuttugu og sjö ár fór hátíðin fram í Kaldárseli en árið 2018 urðu kaflaskil þegar kirkjan þurfti að leita að nýjum hátíðarstað. Hellisgerði varð fyrir valinu en vegna mikilla framkvæmda og fallegrar uppbyggingar á paradís okkar Hafnfirðinga, fór hátíðin fram þar eða á Thorsplani næstu árin. Nú er hátíðin vonandi komin til að vera í Hellisgerði og fyrir það erum við Hafnarfjarðarbæ afar þakklát.

Á þriðja hundrað manns mættu á vorhátíð Fríkirkjunnar þetta árið. Vinir kirkjunnar söfnuðust saman fyrir utan safnaðarheimilið og Lúðrasveit Hafnarfjarðar hitaði mannskapinn upp áður en lagt var af stað í skrúðgöngu í Hellisgerði.

Manni er eiginlega orða vant, þvílík gleði! Örn tónlistarstjóri kirkjunnar náði þó að orða gleðina þegar hann horfði yfir mannhafið og sagði svo fallega „svona lítur kirkja út “.

Án samfélags, samtals, kærleika og virðingar er engin kirkja. Fólkið okkar er kirkjan hvort sem er undir berum himni eða inni í litlu kirkjubyggingunni okkar. Með hverju litlu handtaki safnaðarins nærum við samfélagið og byggjum upp samstöðu. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og við erum öll börn í hjarta okkar. Samstaða og kærleikur skiptir máli fyrir okkur öll. Við skiptum öll máli!

Ég þreytist ekki á að tala um bakland kirkjunnar okkar. Ef við horfum bara á vorhátíðina síðasta sunnudag þá var hjálpsemi og kærleikur ofar öllu.

Prestarnir okkar og safnaðarstjórn kirkjunnar: Frábært samstarf og traust!

Kvenfélagið yfir og allt um kring. Verndarar barnastarfsins; Sunnudagaskólinn, Krílasálmar, Krílakórar og Barnakór Fríkirkjunnar.

Bræðrafélagið: Yfir og allt um kring ef eitthvað þarf að gera! Gáfu kirkjunni glæsilegt grill fyrir hátíðina og grilluðu svo ofan í mannskapinn!

Elsku Fríkirkjukórinn okkar!

Elsku Birna, Gulli og Benni: Vakin og sofin alla daga!

Ung kona sem hefur verið að mæta í Krílasálma með ungabarnið sitt kom til mín og sagði svo fallega; „Ekki átti ég von á því að ég færi að sækja svona mikið í kirkju. Þið eruð svo afslöppuð og yndisleg og svo gott að vera með ykkur“

K.E.B.