Fríkirkjan í Hafnarfirði – samstaða safnaðarfólks í endurbótum á safnaðarheimili kirkjunnar.
Í haust fara fram miklar endurbætur á safnaðarheimili Fríkirkjunnar í Hafnarfirði. Skipt verður um þak og sperrur, húsið klætt að utan með bárujárni og efsta hæðin innréttuð að nýju. Þetta er fyrsti áfangi endurbóta.
Fríkirkjan og safnaðarheimilið gegna viðamiklu hlutverki í starfi Fríkirkjusafnaðarins sem nú telur um 8000 manns. Dagleg sálgæsla þriggja presta er öllum opin auk þess sem prestar kirkjunnar starfa með áfallaráðum skóla og íþróttafélaga. Náið samstarf er við hjúkrunarheimilin í bænum um þjónustu við íbúa.
Til að standa straum af 120 milljón króna kostnaði við þennan áfanga leitar safnaðarstjórn til safnaðarfólks eftir stuðningi við verkefnið. Mun krafa stofnast í heimabanka 30 ára og eldri næstu daga.
Ef einhver vill lækka fjárhæðina eða hækka hana bendum við á söfnunarreikning Fríkirkjunnar í Hafnarfirði á bankareikning númer 0545-26-005159 kt. 560169-5159.
Ef fjölskyldur vilja færa kirkjunni minningargjöf um náinn ættingja er hægt að nota ofangreindar reikningsupplýsingar. Vinsamlegast sendið upplýsingar um gjöf á einar@frikirkja.is
Við eigum öll Fríkirkjuna í Hafnarfirði saman. Við höfum hvert og eitt minningar á gleði- og sorgarstundum, úr sunnudagaskólanum, úr kvöldvökum, fermingarstarfi og úr sálgæslu prestanna sem eru dýrmætar.
Við sem vinnum við Fríkirkjuna, starfsfólk, prestar og sjálfboðaliðar hvetjum ykkur öll og okkur sjálf að styðja við þessar mikilvægu endurbætur á safnaðarheimili kirkjunnar.
Athugið að Fríkirkjan í Hafnarfirði er skráð á almannaheillaskrá Skattsins og þessi framlög geta veitt skattafslátt. Kirkjan sér um að senda Skattinum lista með upphæð og kennitölum þeirra sem styðja kirkjuna og framkvæmdir við safnaðarheimili á hverju ári.
Fyrir hönd starfsfólks og safnaðarstjórnar,
Einar Eyjólfsson, Erna Blöndal, Inga Harðardóttir, Margrét Lilja Vilmundardóttir, Gunnlaugur Harðarsson og Sigurgeir Tryggvason
