Skírn

Fríkirkjusöfnuðurinn er ungur söfnuður þegar miðað er við meðalaldur og því er fjöldi skírnarathafna mikill. Það vekur athygli að eftir gagngerar endurbætur á kirkjunni árið 1999 hefur skírnarathöfnum fjölgað verulega en athöfnum í heimahúsum fækkað. Fer nú mikill meirihluti skírnarathafna fram í kirkjunni og er sérstaklega ánægjulegt hve margir vilja bera börn sín til skírnar í guðsþjónustum.

Það er hins vegar rík hefð fyrir því hjá mörgum fjölskyldum á Íslandi að láta skíra börn sín heima. Þessi siður er óþekktur víðast hvar erlendis en eflaust er skýringin sú að oft var um langan veg að fara með börn til skírnar á Íslandi hér áður fyrr og eðlilegra að prestur kæmi heim en að farið væri með ungabörn um langan veg í misjöfnu veðri til kirkju.

Eflaust er skírnarathöfnin ein fallegasta og mikilvægasta athöfnin í lífi hverrar fjölskyldu. Við skírnina ríkir mikill samhugur, flestir taka undir trúarjátningu og allir sameinast í fyrirbæn fyrir framtíð barnsins, taka undir bænina sem Jesús kenndi lærisveinum sínum.

Vottorð: Ef barn fæðist erlendis þarf að hafa fæðingarvottorð meðferðis.
Frekari upplýsingar eru gefnar hjá Þjóðskrá, Borgartúni 24 s: 569 2900

Skráning í söfnuðinn

Það er ákaflega brýnt að þeir sem kjósa að þiggja sína kirkjuþjónustu í Fríkirkjunni eða kjósa að þiggja þjónusta fríkirkjuprestanna séu skráðir í söfnuðinn. Þetta kemur til af því að ríkisvaldið innheimtir sóknargjöld fyrir sérhvern einstakling og greiðir til þeirrar kirkju sem viðkomandi er skráður í. Sóknargjöldin eru einu föstu tekjurnar sem Fríkirkjan hefur til þess að standa straum af viðhaldi kirkjunnar og safnaðarstarfi. Skráning fer fram á skrifstofu safnaðarpresta eða hjá Þjóðskrá.

 

Skírnarathöfnin

Ávarp og bæn

Sálmur sunginn / lesinn, gjarnan nr. 252.

Ritningarlestur, Mt. 28.18-20 og Mk. 10:13-16.

Skírnarbæn og bæn yfir skírnarsánum.

Allir fara saman með trúarjátninguna (sjá: Trúin og lífið)

Signing – barnið signt á enni og brjóst.

Spurt um nafn barnsins

Skírnin – prestur eys vatni þrívegis á höfuð barnsins

Fyrirbæn – Faðir vor

Ávarp – tendrað á kerti

 

Táknin

Vatn – tákn lífsins. Lífið sem við skírumst til er eilíft líf.

Kross – tákn sigurs og vonar.

Hvíti liturinn – tákn gleði og fyrirgefningar.

Kertaljósið – minnir á orð Jesú sem vill leiða okkur í lífinu.

Láttu nú ljósið þitt,

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaður Jesús mæti.

Sl. 252

Ó, blíði Jesús, blessa þú
það barn, er vér þér færum nú,
tak það í faðm og blítt það ber
með börnum Guðs á örmum þér.

Ef á því hér að auðnast líf,
því undir þínum vængjum hlíf,
og engla þinna láttu líð
það leiða og gæta slysum við.

Ó, gef það vaxi í visku og náð
og verði þitt í lengd og bráð
og lifi svo í heimi hér,
að himna fái dýrð með þér.
(Valdimar Briem)

_______

Ó, Jesús, bróðir besti
og barnavinur mesti,
æ, breið þú blessun þína
á barnæskuna mína.

Mér gott barn gef að vera
og góðan ávöxt bera,
en forðast allt hið illa
svo ei mér nái að spilla.

Það ætíð sé mín iðja
að elska þig og biðja,
þín lífsin sorð að læra
og lofgjörð þér að færa.

Þín umsjón æ mér hlífi
í öllu mínu lífi,
þín líknarhönd mig leiði
og lífsins veginn greiði.