Við höfum fengið þó nokkrar fyrirspurnir frá fólki sem er að velta því fyrir sér hvernig maður skráir sig í Fríkirkjuna í Hafnarfirði og af hverju.

Til að svara fyrri spurningunni þá er tiltölulega auðvelt að gera það í dag, með rafrænum skilríkjum. Það þarf að skrá börnin sín sérstaklega, þ.e. þau færast ekki á milli trúfélaga með foreldrum sínum og báðir foreldrar/forráðamenn þurfa að samþykkja skráninguna. Allt er þetta gert með rafrænum hætti í gegnum heimasíðuna okkar https://www.frikirkja.is/ eða á skra.is.

Af hverju að skrá sig? Skráning í fallegu kirkjuna okkar skiptir okkur öll máli sem þar þiggjum þjónustu. Öll greiðum við ákveðin gjöld – sóknargjöld – sem renna til þess trúfélags sem viðkomandi er skráður í eða verða eftir í ríkissjóði. Okkur finnst vert að benda ykkur á þetta þar sem það er mikilvægt að hver og einn einstaklingur geti látið sín gjöld renna þangað sem hann vill. Við sinnum metnaðarfullu starfi og þjónustum gríðarstóran hóp fólks sem við erum endalaust þakklát fyrir. Til þess að geta haldið úti því góða starfi sem hér fer fram skiptir miklu máli hvert sóknargjöldin renna.

Hlýjar kveðjur og góða helgi

Prestar og starfsfólk Fríkirkjunnar í Hafnarfirði